Nafnið sem enginn man eftir

15 mars, 2013 § Færðu inn athugasemd

Untitled

Einn daginn kom fólk á þennan stað. Það horfði í kringum sig, það pírði kannski augun móti sólu eða reyndi að vefja klæðunum betur utan um sig. Einhver missti hníf, annar datt. Fólkið settist kannski niður, gekk kannski bara í gegnum staðinn eða framhjá. Kannski fékk það sér að borða, kannski svaf það. Kannski stunduðu þau kynlíf, kannski var henni eða þeim nauðgað. Mögulega slógust þeir eða þau. Kannski drápu þau hest. Kannski brotnaði hnífurinn, kannski braut einhver hann.

Kannski ringdi, kannski snjóaði og kannski ofkældist barnið. Kannski var hún þjökuð af blöðrubólgu og kannski var hann haltur. Kannski dó barnið og kannski fæddist annað sem hélt svo áfram og kannski hvílir það enn undir steini. Kannski var maturinn búinn, kannski ekkert eftir nema aumur og undarlegur kjötbiti sem þeir skiptu á milli sín. Kannski var hann einn og vissi að hann yrði barinn ef hann finndi ekki gimrarnar. Kannski var hann á leið út í eilífðina en ákvað svo að snúa við og segja sögur af henni. Kannski sá hann jökulhettuna og varð um leið logandi hræddur og steinhissa yfir því að heimurinn væri svona stór og tómur, en þó yfirfullur af undarlegri orku.

Með tímanum fylltist staðurinn af hugmyndum langt frá vettvangi atburðanna sem í dag eru öllum horfnir. Þegar hugmyndagruggið fór að setjast og hugar fólksins urðu tærir tóku þær að eyðast þar til ekkert var eftir nema nafnið eitt. Nafnið varð svo undirstaða okkar hugmynda um atburðina sem löngu eru liðnir.

Konungleg afskipti af tímanum

1 mars, 2013 § Færðu inn athugasemd

Í ekki svo fjarlægu landi, einhverntímann á síðustu árum (eða áratugum) var konungur sem réði nánast öllu sem hægt var að ráða. Hann hafði sett ströng lög um kynlíf, barneignir, siði, klæðnað, fjármál, búskap, mataræði, skemmtanir, bókmenntir, listir, nöfn á mánuðum, dögum og vikum og flest allt sem snerti daglegt líf fólksins en þrátt fyrir það hafði honum aldrei tekist að stjórna tímanum. Fólkið fór að sofa þegar því sýndist og vaknaði þegar því sýndist og þrátt fyrir að fólk gerði allt sem það átti að gera, þá var ómögulegt að vita hvenær það gerði það.

Eina nóttina þegar konungurinn var svefnlaus yfir stjórnleysi sínu datt honum loks ráð í hug. Hann ákvað að láta senda eftir öllum klukkum landsins og fá þær til sín. Um morguninn þegar fólkið vaknaði var hann þegar búinn að skrifa niður tilskipun þess efnis og safnaði til sín öllum erindrekum og sendiboðum sem strax hófust handa. Þeir ferðuðust til allra þorpa, sveita og dala, fram á ystu annes og inn í afskekktustu héruð til að safna öllum klukkum sem hægt væri að finna.

Um það bil þremur árum síðar var verkinu lokið, langt á eftir áætlun konungsins sem fyrir vikið hafði legið í rúminu lengst af sökum áhyggja. Þegar síðasti erindrekin renndi í hlað með síðustu klukkuna, stóra og forna standklukku sem hann hafði fengið hjá eybónda lengst norðan við nyrstu byggðir, þá lifnaði heldur yfir konunginum sem iðaði í skinninu eftir að ná loks stjórn á því síðasta sem hægt var að stjórna.

Morguninn eftir voru þrír bestu stærðfræðingar ríkisins mættir inn í klukkugeymsluna. Konungurinn slóst í hópinn með þeim og skipaði svo að enginn skyldi trufla þá fyrr en niðurstöður yrðu ljósar. Þeim skyldi færður matur þrisvar sinnum á dag en þess utan mætti alls ekki ónáða þá. Þeir hófust strax handa við að skrá niður allar tímasetningar sem klukkurnar sýndu, mismun þeirra, skekkjur og gangtruflanir og vonuðust til þess að þannig myndi þeim takast að finna hinn algera tíma sem allir gætu þá farið eftir.

Verkið tók miklu lengri tíma en þeir bjuggust við og eftir fimm ár töldu þeir að verkinu væri lokið. Hinn eiginlegi tími var fundinn, tími sem konungurinn ætlaði að gera að ríkistíma sem allir myndu fara eftir. Hann ákvað að nokkrum dögum síðar, á degi Heilagrar Heildar, þá myndi hann á slaginu tólf tilkynna þegnum sínum hinn nýja tíma.

Loks rann dagurinn upp og stundin nálgaðist. Fólkið hafði safnast saman á torginu fyrir framan höllina þar sem það fagnaði hinni Heilögu Heild samkvæmt gömlum vana. Eina mínútu í tólf birtist konungurinn svo á svölunum ásamt skrifara sínum og einum af stærðfræðingunum sem hélt á réttustu klukkunni. Þegar lítill gaukur opnaði litlar dyr á henni og rak höfuðið út hrópaði konungurinn að nú væri klukkan tólf og skrifarinn skrifaði það niður.

En um leið og tíminn var kominn niður á blað virtist sem hann rynni úr greypum konungsins. Fólkið horfði undrandi hvort á annað og hélt svo sína leið. Eftir þetta lifðu allir í sátt og samlyndi án nokkurra afskipta konungsins og enginn virtist sakna þess að hafa klukku.

Helsinki

1 mars, 2013 § Færðu inn athugasemd

Allt um lykjandi er hann
en tjöldin teikna mörkin
og gefa þér nokkuð örugga mynd.

Lágvært suð að utan
og daufur hlátur kaffivélar
sem stundum kafnar í hrópum.

Í rökkrinu býr sjónvarpið
og þegar enginn sér til
þá mátt þú kannski prófa.

Svo hlær kaffivélin aftur
og aftur og aftur
en úti dansa þau.

Flutningar

26 febrúar, 2013 § Færðu inn athugasemd

Líf okkar samanstendur af minningum. Minningarnar tengja okkur við fortíðina og heimilið hlutgerir hana. Heimilið er okkar, það er sagan okkar geymd og minnir okkur á hvaðan við komum, hver við erum og hvar við getum alltaf leitað skjóls á kvöldin þegar við erum þreytt eftir daginn. Heimilið er okkar griðarstaður hvar við leyfum persónu okkar að flæða út fyrir landamærin sem annars eru kyrfilega lokuð þegar við erum stödd fyrir utan veggi þess. Innan veggjanna hverfa okkar innri veggir. Við verðum aðeins meira við.

Svo rífum við það í sundur og breytum ofurlítilli óreiðu í meiri óreiðu. Heimilið hverfur ofan í kassa en formið verður eftir. Smám saman hættir húsið að vera heimili, andinn yfirgefur það og týnist. Í miðjum flutningum á maður hvergi heima, brotin eru hér og þar og meðan þau raðast saman í nýju rými breytist nýja rýmið allt í einu í nýtt heimili. Nýtt sem er byggt á því gamla. Óreiðan verður óyfirstíganleg á köflum en jafnar sig að lokum.

Við notum tækifærið og hendum því sem hefur misst gildi sitt. Hlutir sem hafa slitið tengslin við minningarnar eða breytt um merkingu fá að hverfa. Samt verður alltaf eitthvað eftir og fær að hefja enn eitt framhaldslífið. Við spyrjum má henda þessu? en ákveðum að eiga það aðeins lengur, allavega þangað til við flytjum næst. Þá hefst endurskoðunin á ný, óreiðan færist yfir á ný og breytir heimilinu aftur í hús.

Baldur tveggja ára

16 febrúar, 2013 § Færðu inn athugasemd

IMG_5466

Fyrir um það bil tveimur árum hittum við hann Baldur Flóka í fyrsta sinn. Hann var logandi hræddur við nýju aðstæðurnar og virtist í fyrstu ekki vera fullkomlega sáttur við þennan heim. En sennilega hefur hann ekki ráðið för og smám saman lærði hann að kunna að meta heiminn og í dag hafa hann og lífið myndað með sér sátt.

Það er búið að vera merkilegt að vera með honum í þessi tvö ár. Líkami hans hefur stækkað og þroskast en á einhvern hátt má segja að andi hans eða meðvitund hafi um leið minnkað. Í fyrstu held ég að meðvitundin hafi verið stór og óreiðukennd súpa af hugsunum og tilfinningum sem sveiflaðist til og frá á meðan hann áttaði sig á því hvað sneri upp og hvað niður, hvað var hann og hvað ekki. Eina stundina var hann í þessum heimi og reyndi að skilja þessa þokukenndu mynd og ruglingslegu hljóð sem bárust honum en hina stundina svaf hann og hefur sjálfsagt glímt við drauma sem reyndu að segja honum hvar hann væri, hvað hann væri og hvað hann ætti að gera við þennan nýja veruleika.

Smám saman lærði hann að hann hefði líkama og að hann gæti stjórnað honum. Í dag er hann að klást við tungumálið og alla leyndardómana sem hann langar til að koma frá sér og fá frá okkur hinum. Hann stendur sig vel á þessu ferðalagi og það hefur verið ótrúlega innihaldsríkt að ferðast með honum. Á sama tíma og við kennum honum okkar hugmyndir um lífið þá hefur honum tekist að kenna okkur svo ótal margt. Baldri tekst nefnilega að gæða dauða hluti lífi og hefur kynnt okkur fyrir algjörlega nýju sjónarhorni á hversdagsleikann.

Hann er nýbyrjaður þetta ferðalag sem ég held að verði langt og farsælt. Ég hef trú á að hann haldi áfram þegar við Lilý förum en þangað til ætlum við að halda áfram að njóta samverunnar og hlakka til framtíðarinnar með honum.

Skilaboð til okkar hinna

7 febrúar, 2013 § Ein athugasemd

hurdir05s
Í þjóðfræðinni er gjarnan talað um jaðarinn sem getur verið jaðarsvæði eða jaðartímabil og merkir eitthvað sem hvorki er hérþar eða bæði hér og þar, á milli tveggja tíma eða staða. Gamlárskvöld er til dæmis jaðartímabil, þar erum við á milli tveggja ára og þar sem móarnir enda og sandurinn tekur við er jaðarsvæði því þar erum við á mörkum byggðar og óbyggðar. Þessi tímabil og svæði bjóða upp á heilan heim af sögum og ókunnum verum sem smjúga á milli heimanna tveggja. Til dæmis fara kýr að tala á nýársnótt og álfar flytja búferlum og á mörkum byggðar og óbyggða má búast við því að rekast á útilegumenn og aðrar vættir.
hurdir01s
En jaðarsvæðin finnast líka nær okkur og eitt af þeim er hurðin sem skilur heimilið okkar frá restinni af heiminum. Hurðin skilur að hið persónulega og hið almenna, hún er landamærahliðið sem fólk þarf að ganga í gegnum áður en við ákveðum hvort við eigum að hleypa því inn eða ekki. Fyrir innan hurðina eigum við okkur griðarstað en fyrir utan höfum við minni stjórn á aðstæðum og erum berskjaldaðri. Þar þurfum við að fylgja strangari reglum heldur en fyrir innan, hvort við megum vera nakin helgast mikið til af því hvoru megin hurðarinnar við erum.

Stundum förum við út fyrir heimilið og inn á önnur heimili, þá erum við komin inn í annan heim sem á ýmislegt sameiginlegt okkar eigin heimili en þar þurfum við að lúta öðrum reglum. Aðeins á okkar heimili höfum við okkar eigin regluverk en þar þurfum við stundum að deila regluverkinu með öðrum.
hurdir06s
Hurðin getur sagt umheiminum ýmislegt um fólkið fyrir innan, hún getur flutt skilaboð frá innri heiminum til þess ytri og þannig gefið vísbendingar um reglurnar fyrir innan. Hurðin segir til um hvað megi fara inn og hvað ekki, hverjir eru velkomnir og hverjir ekki. Hurðin segir okkur hverjir búa fyrir innan en þær upplýsingar eru þó aldrei mikið meira en nafn og stöku tákn sem gefa persónurnar til kynna. Án frekari kynningar verður fólkið fyrir innan aðeins daufar hugmyndir um manneskjur og við höfum aðeins takmarkaða sýn á líf þeirra.

Hérna eru nokkur dæmi um skilaboð frá þeim sem eru fyrir innan hurðirnar. Skilaboðin eru ætluð okkur hinum og á meðan við tölum ekki við fólkið sem býr inni á heimilunum þá verða þessar vísbendingar og ímyndunaraflið að duga til að kynnast því.

« Read the rest of this entry »

Staðurinn sem enginn man eftir

29 janúar, 2013 § Færðu inn athugasemd

Staðurinn sem enginn man eftir er í dag afmarkað svæði með óljósum landamærum. Hann lifir sem nafn á korti, nafn sem í samvinnu við ímyndunarafl okkar sem skoðum kortið býr til nýja mynd af nýjum stað.
Staðurinn er óháður tíma eða árstíðum, himininn er eins og við viljum, veðrið er eins og við viljum. Sólin er fyrir ofan okkur eða neðan okkur.

Staðurinn sem enginn man eftir verður aftur til. Minningar þeirra sem staðinn heimsóttu svifu mjúklega yfir mosanum og kolsvörtu grjótinu þangað til fólkið var farið. Minningarnar skiptust í tvennt, sumar fóru með síðustu gestunum en aðrar urðu eftir. Á milli þeirra var taug sem lengdist í sífellu þangað til hún slitnaði og minningabrotin misstu flugið.
Brotin sukku ofan í mosann og steinrunnu loks í nafninu sem prentað var á kort.

2881174199_cfb51d250f_z

Staðurinn sem enginn man eftir er samanþjappaður atburður, vandlega hnoðaður í undarlegt nafn sem býður þess að springa út og verða að hugmyndum, nýjum minningum og upplifunum.

Landnám

29 janúar, 2013 § Færðu inn athugasemd

Hún fylgdist með langskipinu sigla inn spegilsléttan fjörðinn sem skarst djúpt inn í hið ókannaða landi. Hún stóð umvafin þéttum birkiskóginum og passaði að enginn sæi sig. Skipið lagðist upp að lágum kletti og víkingurinn bannaði samferðarmönnum sínum að hreyfa sig fyrr en hann sjálfur væri búinn að nema þetta land.

Fætur hans slepptu skipinu, snertu klettinn og þannig var landið formlega numið. Hann dró andann djúpt og lyngdi aftur augunum. Loftið var nýtt og ferskt og bar með sér daufan keim af hausti. Þarna var vindurinn aðeins andvari, þarna var sólin lægra á lofti en þaðan sem þeir silgdu úr höfn og þarna var kuldinn hvetjandi. Vindlausa land, land sólarinnar. Mitt land. Bláskógaland!

því úr fjarlægð virtist birkiskógurinn vera blár

Menn hans stukku hver á fætur öðrum upp á klettinn og loks gengu þeir allir inn í þéttvaxið kjarrið, tilbúnir að mæta öllum þeim undrum og ógnum sem ókannað land gat boðið upp á. Þegar þeir komu að litlu rjóðri hrukku þeir í kút við að sjá mömmu víkingsins standa brosandi í fallegum faldbúningi við dúkalagt borð drekkhlaðið af pönnukökum, kleinum og flatbrauði með hangikjöti.

Landnámið var ekki eins og þeir bjuggust við, en landið var gjöfult og bakkelsið bragðaðist ljómandi vel.

Lokað

21 janúar, 2013 § Færðu inn athugasemd

Nei því miður,
sagði dyravörðurinn.
En engar voru dyrnar,
aðeins ský.

Þú deyrð víst ekki í dag
vinur minn.