Nafnið sem enginn man eftir

15 mars, 2013 § Færðu inn athugasemd

Untitled

Einn daginn kom fólk á þennan stað. Það horfði í kringum sig, það pírði kannski augun móti sólu eða reyndi að vefja klæðunum betur utan um sig. Einhver missti hníf, annar datt. Fólkið settist kannski niður, gekk kannski bara í gegnum staðinn eða framhjá. Kannski fékk það sér að borða, kannski svaf það. Kannski stunduðu þau kynlíf, kannski var henni eða þeim nauðgað. Mögulega slógust þeir eða þau. Kannski drápu þau hest. Kannski brotnaði hnífurinn, kannski braut einhver hann.

Kannski ringdi, kannski snjóaði og kannski ofkældist barnið. Kannski var hún þjökuð af blöðrubólgu og kannski var hann haltur. Kannski dó barnið og kannski fæddist annað sem hélt svo áfram og kannski hvílir það enn undir steini. Kannski var maturinn búinn, kannski ekkert eftir nema aumur og undarlegur kjötbiti sem þeir skiptu á milli sín. Kannski var hann einn og vissi að hann yrði barinn ef hann finndi ekki gimrarnar. Kannski var hann á leið út í eilífðina en ákvað svo að snúa við og segja sögur af henni. Kannski sá hann jökulhettuna og varð um leið logandi hræddur og steinhissa yfir því að heimurinn væri svona stór og tómur, en þó yfirfullur af undarlegri orku.

Með tímanum fylltist staðurinn af hugmyndum langt frá vettvangi atburðanna sem í dag eru öllum horfnir. Þegar hugmyndagruggið fór að setjast og hugar fólksins urðu tærir tóku þær að eyðast þar til ekkert var eftir nema nafnið eitt. Nafnið varð svo undirstaða okkar hugmynda um atburðina sem löngu eru liðnir.

Færðu inn athugasemd

What’s this?

You are currently reading Nafnið sem enginn man eftir at Trausti Dagsson.

meta