Skilaboð til okkar hinna

7 febrúar, 2013 § Ein athugasemd

hurdir05s
Í þjóðfræðinni er gjarnan talað um jaðarinn sem getur verið jaðarsvæði eða jaðartímabil og merkir eitthvað sem hvorki er hérþar eða bæði hér og þar, á milli tveggja tíma eða staða. Gamlárskvöld er til dæmis jaðartímabil, þar erum við á milli tveggja ára og þar sem móarnir enda og sandurinn tekur við er jaðarsvæði því þar erum við á mörkum byggðar og óbyggðar. Þessi tímabil og svæði bjóða upp á heilan heim af sögum og ókunnum verum sem smjúga á milli heimanna tveggja. Til dæmis fara kýr að tala á nýársnótt og álfar flytja búferlum og á mörkum byggðar og óbyggða má búast við því að rekast á útilegumenn og aðrar vættir.
hurdir01s
En jaðarsvæðin finnast líka nær okkur og eitt af þeim er hurðin sem skilur heimilið okkar frá restinni af heiminum. Hurðin skilur að hið persónulega og hið almenna, hún er landamærahliðið sem fólk þarf að ganga í gegnum áður en við ákveðum hvort við eigum að hleypa því inn eða ekki. Fyrir innan hurðina eigum við okkur griðarstað en fyrir utan höfum við minni stjórn á aðstæðum og erum berskjaldaðri. Þar þurfum við að fylgja strangari reglum heldur en fyrir innan, hvort við megum vera nakin helgast mikið til af því hvoru megin hurðarinnar við erum.

Stundum förum við út fyrir heimilið og inn á önnur heimili, þá erum við komin inn í annan heim sem á ýmislegt sameiginlegt okkar eigin heimili en þar þurfum við að lúta öðrum reglum. Aðeins á okkar heimili höfum við okkar eigin regluverk en þar þurfum við stundum að deila regluverkinu með öðrum.
hurdir06s
Hurðin getur sagt umheiminum ýmislegt um fólkið fyrir innan, hún getur flutt skilaboð frá innri heiminum til þess ytri og þannig gefið vísbendingar um reglurnar fyrir innan. Hurðin segir til um hvað megi fara inn og hvað ekki, hverjir eru velkomnir og hverjir ekki. Hurðin segir okkur hverjir búa fyrir innan en þær upplýsingar eru þó aldrei mikið meira en nafn og stöku tákn sem gefa persónurnar til kynna. Án frekari kynningar verður fólkið fyrir innan aðeins daufar hugmyndir um manneskjur og við höfum aðeins takmarkaða sýn á líf þeirra.

Hérna eru nokkur dæmi um skilaboð frá þeim sem eru fyrir innan hurðirnar. Skilaboðin eru ætluð okkur hinum og á meðan við tölum ekki við fólkið sem býr inni á heimilunum þá verða þessar vísbendingar og ímyndunaraflið að duga til að kynnast því.

§ 1 Responses to Skilaboð til okkar hinna

Færðu inn athugasemd

What’s this?

You are currently reading Skilaboð til okkar hinna at Trausti Dagsson.

meta