Staðurinn sem enginn man eftir

29 janúar, 2013 § Færðu inn athugasemd

Staðurinn sem enginn man eftir er í dag afmarkað svæði með óljósum landamærum. Hann lifir sem nafn á korti, nafn sem í samvinnu við ímyndunarafl okkar sem skoðum kortið býr til nýja mynd af nýjum stað.
Staðurinn er óháður tíma eða árstíðum, himininn er eins og við viljum, veðrið er eins og við viljum. Sólin er fyrir ofan okkur eða neðan okkur.

Staðurinn sem enginn man eftir verður aftur til. Minningar þeirra sem staðinn heimsóttu svifu mjúklega yfir mosanum og kolsvörtu grjótinu þangað til fólkið var farið. Minningarnar skiptust í tvennt, sumar fóru með síðustu gestunum en aðrar urðu eftir. Á milli þeirra var taug sem lengdist í sífellu þangað til hún slitnaði og minningabrotin misstu flugið.
Brotin sukku ofan í mosann og steinrunnu loks í nafninu sem prentað var á kort.

2881174199_cfb51d250f_z

Staðurinn sem enginn man eftir er samanþjappaður atburður, vandlega hnoðaður í undarlegt nafn sem býður þess að springa út og verða að hugmyndum, nýjum minningum og upplifunum.

Færðu inn athugasemd

What’s this?

You are currently reading Staðurinn sem enginn man eftir at Trausti Dagsson.

meta